Hrærð egg með brúnuðum sveppum

Óskilgreindar uppskriftir

Hrærð egg á ristuðu brauði með steiktum sveppum, hvítlauk og rauðum Chili - fyrir einn

Efni:
Eggjahræra:
Hænuegg - meðalstór, 3 stk.
Smjör - væn klípa
Sýrður rjómi - 1 matskeið

Meðlæti:
Sveppir - 10 til 12 stk. meðalstórir
Rauður Chili - 1 stk
Hvítlaukur - 3 til 4 geirar

Meðhöndlun
Panna hituð vel upp, ólífuolíu hellt á pönnuna.
Sveppir og Chili pipar gróft skorinn og hent á pönnuna, og hvítlauksgeirunum einnig.
Látið brúnast við miðlungshita á meðan eggjahræran er útbúin.

Þrjú egg brotin í pott, fylgt eftir með klípu af smjöri. Hrært hraustlega og stöðugt í við nokkuð háan hita, potturinn tekinn af hellunni reglulega til að hræran brenni ekki við.
Þegar hræran er orðin vel þykk og lítið eftir af vökva, er matskeið af sýrðum rjóma bætt við og hrært áfram.

Hrærunni er dreift á tvær ristaðar brauðsneiðar (mæli með góðu og matarmiklu brauði, t. d. Munkabrauði úr Hagkaup). Hvítlauksgeirarnir fjarlægðir af pönnunni áður en sveppum og Chili er dreift yfir hræruna á brauðinu.

Saltað og piprað að smekk.

Einnig er gott að setja heila kirsuberjatómata á pönnuna með sveppunum og piparnum.

Afbragðsgóður morgunverður til að hefja nýjan dag.

Sendandi: Sigurður Axel Hannesson <sah@iceware.net> (12/04/2013)


UppskriftaWWWefurinn - www.eldhus.is
Ingimar og Siggi